Skilgreining
Störf veggfóðrara og dúklagningamanna felast einkum í efnisvali, með hliðsjón af aðstæðum, eiginleikum og óskum viðskiptavinar, nákvæmri undirbúningsvinnu s.s. hreinsun og viðgerð vinnuflatar og síðan fullvinnslu verksins með lagningu viðeigandi vegg- eða gólfklæðninga. Iðngreininni tilheyrir flest það sem límt er inn í híbýli manna, svo sem veggfóður, skreytiborðar, strigi og fleiri klæðningar í loft og á veggi. Ennfremur leggja dúklagningamenn og veggfóðrarar gólfteppi, gólfdúka og gólfplötur auk ýmissa hljóðdeyfandi klæðninga. Mikilvægur hluti af faginu er lagning gólf- og veggefna í votrými, t.d. í baðherbergi og iðnaðarhúsnæði. Sumir dúklagningamenn sérhæfa sig í lagningu gerviefna á íþróttavelli, íþróttahús, sundlaugar og þök. Rétt til starfa við veggfóðrun og dúklagnir hafa þeir sem leyst hafa til sín sveinsbréf í veggfóðrun og dúklagningum sem iðnaðarráðherra gefur út.