Skilgreining
Hjá leiðbeinendum í leikskólum er starfið fyrst og fremst fólgið í umönnun, uppeldi og menntun barna á aldrinum eins til sex ára. Leiðbeinandi í leikskóla tekur þátt í daglegu starfi leikskólans og sinnir fjölbreyttum verkefnum. Hann tekur þátt í að framfylgja markmiðum aðalnámskrár leikskóla og vinnur að innra starfi skólans. Starfið felst einnig í að leiðbeina börnum við leik og störf og vera þeim góð fyrirmynd. Áhersla er lögð á markvisst foreldrasamstarf sem m.a. felst í því að veita foreldrum upplýsingar, færni í mannlegum samskiptum og hæfni til að mæta hverju barni á eigin forsendum. Starfsvettvangur skólaliða og stuðningsfulltrúa er í grunnskólum. Starf skólaliða felur m.a. í sér umsjón með börnum í útivist og á matmálstímum, umsjón með skólahúsnæði og skyldum verkefnum. Starf stuðningsfulltrúa í grunnskóla er fólgið í að liðsinna börnum sem þurfa á sérstökum stuðningi að halda til að geta sinnt námi sínu og stundað skólann. Lögð er áhersla á færni í mannlegum samskiptum og þess krafist að viðkomandi sé tilbúinn að bæta við sig þekkingu til að annast fötluð börn og börn af erlendum uppruna. Mikilvægt er að þessir aðilar hafi þekkingu og færni í að sinna félagsstarfi, en þar er að finna ákveðna undirstöðu til að starfa með börnum og unglingum í leik og námi. Þessi störf eru í mikilli þróun og eru tilfallandi verkefni hluti starfsins.