Skilgreining
Störf pípulagningamanna felast einkum í að leggja og gera við neysluvatns-, heitavatns-, frárennslis-, loft- og gaslagnir á heimilum, stofnunum og fyrirtækjum. Þeir setja upp hreinlætistæki eins og salerni, handlaugar, vaska, baðker, sturtuklefa og setlaugar. Þeir starfa einnig við lagningu snjóbræðslukerfa, uppsetningu kælirafta og sólarorkukerfa. Þeir sinna alhliða lagnavinnu. Nýlagnir eru viðamestar í starfi pípulagningamanna, sem og viðhald, endurnýjun og ýmiss konar þjónusta. Má þar nefna störf við stillingar og eftirlit, ráðgjöf, sölu og kynningar. Rétt til starfa í pípulögnum hafa þeir sem leyst hafa til sín sveinsbréf í pípulögnum sem iðnaðarráðherra gefur út.